Færsluflokkur: Bloggar

SAMVINNA = ÁRANGUR


Að líta yfir farinn veg er gamall og góður siður um áramót og einnig til framtíðar. Árið 2012, sem nú er að líða, hefur borðið í skauti sér ýmislegt sem bæði er gott og vont, eins og öll ár gera. Mörg höfum við séð á bak nánum ættingjum eða vinum, skörðin eru mörg og vandfyllt. Þeim, sem um sárt eiga að binda, sendi ég mínar samúðarkveðjur.
Flest höfum við líka eignast nýja vini, börn hafa fæðst í þennan heim, öll eru þau velkomin og ég óska þeim árs og friðar á þessum tímamótum.
Þegar við stöndum á tímamótum í lífi okkar, sem geta hvort heldur sem er verið lituð af gleði eða sorg, þá er okkur nauðsynlegt að staldra við, horfa til baka, líta yfir farinn veg, draga af honum lærdóm, nýta hann til að búa okkur undir framtíðina.
Oft er sagt að orð eru til alls fyrst. Þegar góðum árangri er náð í samfélagsverkefnum er það alltaf í kjölfar góðar samvinnu og samtals. Hinar hefðbundnu tegundir samtals eru eftirfarandi: Eintal þar sem ræðan er frá einum og ekki skipst á skoðunum. Samtal þar sem rætt er um málin og þau krufin til mergjar af tveimur aðilum. Umræður þar sem skipst er á skoðunum í hóp og sameiginleg lausn fundin. Rökræður þar sem kappkostað er að haga máli sínu þannig að hver og einn færir rök fyrir sínu máli sem geta kollvarpað málstað andstæðinga.
En okkar sér íslenska rökræðuhefð er síðan fimmta tegundin en þá er ekki deilt með rökum heldur hjólað beint í manninn og hann sem einstaklingur rifinn niður með alskyns óhróðri. Þessari umræðuhefð okkar verður að breyta því hún skilar okkur ekki fram á veginn.
Nýverið varð ég þeirrar ánægju aðnjótandi að starfa í öflugum hópi sem skipulagði fund með starfsmönnum stofnanna tengdum félags og velferðarmálum á Suðurnesjum. Fundurinn var haldinn í Fjölbrautarskólanum og skipulagður með svokölluð Heimskaffi eða Worldcafé sniði . Þar komu fram margar og fjölbreyttar skoðanir á eflingu og þróun velferðar á Suðurnesjum. Margar mjög athyglisverðar hugmyndir kviknuðu á fundinum. Hér nefni ég aðeins þrjár af mörgum.
• Við verðum að sá jákvæðni og stunda uppbyggilega umræðu um heimahagana og hampa því góða og bæta úr því sem miður er.
• Auka menntunarúrræði sem mæta atvinnutækifærum framtíðarinnar á Reykjanesi.
• Skapa meiri samstöðu meðal íbúa og efla samstarf sveitarfélaganna allra.
Margar fleiri frábærar hugmyndir kviknuðu sem hefur verið gert grein fyrir og verður unnið að í nálægri framtíð. Við getum öll staðið saman um að fjölga störfum sem skapa atvinnu sem verður grunnur að vexti sem svo tryggir velferð fyrir okkur öll.
Það er áskorun til okkar allra að taka virkan þátt í samfélaginu, því bið ég þig lesandi góður að skoða hug þinn og spyrja þig hvað þú getur gert til að samfélagið okkar verði betra, það er allt sem þarf. Ræddu málin og taktu þátt, vettvangur í flokkstarfi Framsóknarflokksins er kjörinn til þess.
Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári með þökk fyrir góða samvinnu á undanförnum árum.
Kristinn Þór Jakobsson bæjarfulltrúi Reykjanesbæ.
Greinin birtist í Suðurnes jólablaði Framsóknarmanna á Suðurnesjum 2012

Hey þú! ég er að tala við þig!

Þegar vandamál steðja að er mikilvægt að tileinka sér lausnarmiðaða hugsun og finna út leiðir til að leysa málin. Ef þú býrð við vandamál þá er lausnin yfirleitt ekki langt undan. Vandamálin sem leið-togar í Reykjanesbæ, og reyndar Íslandi öllu, búa við í dag eru flókin og síbreytileg . Þau eru mörg samtengd og á þeim eru ekki einfaldar lausnir, þar sem forysta um að leysa þau sekkur oft í fen kúltúrs sem fylgjandi er óbreyttu ástandi, viðurkennir ekki og aðlagast ekki breyttum aðstæðum og hvetur til stöðnunar: Inn á milli dvelja svo einstaklingar í algerri sjálfsblekkingu um eigið ágæti.

Viðhorfshörðnun

Það má tala um skeytingarleysi þar sem fastmótaðar hugmyndir, stöðnuð viðhorf og ákvarðanataka íþyngjandi af fyrirfram gefnum forsendum og óraunhæfum væntingum ráða ferðinni. Leiðtogar sem vilja láta taka mark á sér í framtíðinni þurfa að nálgast vandamálin á aðgætin hátt; með þekkingu sem einu sinni var ákvörðun einhvers, með skilningi á að hlutir og aðstæður eru síbreytilegar og að meðvitund um að ólík sjónarmið hjálpa okkur að sjá hlutina í nýju ljósi. Aðgætin forysta getur bætt til muna hvernig árangri leiðtogar skila og hvaða hlutverk þeir leika í að forma og koma á stefnu til að leiða okkur úr aðstæðum sem við búum við í dag.

„Mistök eru lykillinn að því að vera í nútíðinni“ sagði einhver og hélt áfram „við þurfum að gera mis-tök vegna þess að þau afhjúpa tækifærin sem við annars væru ómeðvituð um“. Mistök í einu sam-hengi gætu verið ávísun á velgengin í öðru. Við erum summan af teknum ákvörðunum okkar.

Gerðu eitthvað í málinu

Þátttaka eða félagsauður hefur verið nokkuð tíðrætt síðustu vikurnar. Í ljósi þess þurfum við öll að taka okkur á því mestu áhrifin á framtíðina eru í okkar höndum. Endurreisn Ísland hefst ekki í sölum Alþingis eða bæjarstjórnar Reykjanesbæjar heldur heima hjá okkur, þar sem hugmyndir að breyt-ingum verða fyrst til. Ég og þú verðum að taka þátt í að skapa framtíð okkar með þeim sem eru að því nú þegar. Við þörfnumst þín! Það er ekki nóg að bölva öllu og öllum og setjast síðan fyrir framan imbakassann og sætta sig við kyrrstöðuna.

Ný forysta nýir leiðtogar

Leiðtogar verða að hvetja til þátttöku, umfram hið augljósa, til að tækla vandamál og leita leiða að fjölbreytni, virkni og nýsköpun sem verður að liði við lausn þeirra vandamála sem steðja að okkur. Forysta er ómissandi en „hitamælandi“ leiðtogar, sem reyna að haga stefnu sinni eftir hitastigi almennrar umræðu, hafa haft áhrif of lengi. Skortur er á „hitastillandi“ leiðtogum sem setja stefnuna og rata hana af skynsemi og forsjálni. Við þurfum pólitískan vilja og samvinnu til að koma Reykjanesbæ og Íslandi upp úr skuldafeninu, auka atvinnu og framleiðslu til að knýja hagvöxt af stað aftur, til að tryggja að komandi kynslóðir verðir skildar eftir með byrgðar undirförulla loforða.

Eitt af aðal markmiðum og verkefnum leiðtoga í dag er að skapa umhverfi þar sem fólk finnur sig knúið til að breyta sínum aðstæðum. Það er þörf á nýjum leiðtogum með nýja sýn á framtíðna. Hvað getur þú lagt til?

Taktu þátt því þetta er samfélagið þitt og mikilvægt að rödd þín heyrist!

Kristinn Þór Jakobsson Bæjarfulltrúi Framsóknar í Reykjanesbæ Verkefnastjóri hjá MSS, meistaranemi í HÍ og matreiðslumeistari.


Ræða á bæjarstjórnarfundi Reykjanesbæjar þriðjudaginn 17. maí 2011

Forseti ágætu bæjarfulltrúar góðir áheyrendur.

Mér er það ljúft að hrósa þeim sem það eiga skilið fyrir greinargóð svör.  Þegar maður les svörin við þeim spurningum sem ég lagði fram fær maður aukna trú á stjórnsýslunni Reykjanesbæjar og endurskoðanda fyrir að gefa ítarleg og faglega unni svör.

Í skýrslu endurskoðenda er margt forvitnilegt að sjá, svona til gamans má sjá t.d. að orðið óvissa kemur fyrir 9 sinnum.  5 sinnum kemur orðið rekstrarhæfi fyrir og yfirleitt er orðið óvissa er skammt undan.

Það vekur athygli einnig að í svörum við spurningum mínum við útreikning á virði skuldabréfsins á Magma er vísitala álverðs ekki notuð heldur aðeins við vexti 3.5%. sem fjárfestir geri ég fyrirvara á útreikningi á virði bréfsins.

Bæjarsjóður, Reykjaneshöfn og fasteignir Reykjanesbæjar búa í dag við gríðarlega lausfjárskort. En hvað er hægt að gera til að bjarga fjármálum Reykjanesbæjar?

Til að vinna buga á lausafjárvandaum þarf í raun að selja vel flestar seljanlegar eignir Reykjanesbæjar.

Fjárfestar eða lánadrottnar Reykjaneshafnar fara fram á að bæjarsjóður leggi höfninni til 1 milljarða króna á árinu 2011 til að þeir verði fáanlegir  til að lengja lánstíma annarra lána. En til að gera rekstur Reykjaneshafnar sjálfbæran þannig að hún geti greitt eitthvað uppí 5.600 miljóna króna skuld sinni,  þá þarfa að fara sjá til tekna af Kílsveri og  Álveri og einnig þarf að selja lóðir undir meiri starfsemi. Hér er mikil og stór óvissa.  En við skulum vona það besta.

Til að bærinn geti lagt höfninni þessar 1000 milljónir er nauðsynlegt er að selja skuldabréf sem fékkst fyrir söluna i Hitaveitu Suðurnesja. Þá eru um 5.700 miljóna króna skammtímaskuld sem að hluta til er búið að endurfjármagna.  Þrátt fyrir það verður greiðsla næsta árs afborgana skammtímaskulda  3.000 milljónir. Því verður að ráðast í endurfjármögnun þessara lána því vonlítið er að rekstur bæjarsjóðs nái að skila þessum upphæðum.

Þessvegna verður jafnvel nauðsynlegt að selja eitthvað af hlut Reykjanesbæjar í HS Veitum til að grynnka á skuldastabbanum. 

Meirihlutinn með bæjarstjórann í broddi fylkingar hefur tala fyrir betri bæ og bættu mannlífi í Reykjanesbæ. Hann hefur átt sér drauma, já stóra drauma um að auka hér velsæld með tilkomu þúsunda starfa, nýjum tækifærum framtíðarsýn um betra mannlíf hér í Reykjanesbæ. Framtíðarsýnin var byggð á afar veikum grunni óskhyggju án raunsæis því hefur framtíðarsýnin breyst í martröð hins vinnandi og hugsandi manns, allar íbúa Reykjanesbæjar. Jú reikningurinn mun allur verða okkar,  já hann lendir að lokum hjá okkur íbúum Reykjanesbæjar. Við verðum í framtíðinni að sætta okkur við lakari þjónustu, verri lífskjör, aukna skatta og útgöld til að gera rekstur bæjarfélagsins okkar sjálfbærann.

Þá er sá draumur sem því miður er að breytast í martröð, martröð þeirra sem hér sitja í meirihluta og vilja ekki horfast í augu við sannleikann veruleikann. Það þýðir ekki að kenna neinum nema okkur sjálfum um að draumurinn rættist ekki. Draumurinn var eins og draumar eru venjulega,  ekki byggður á raunhyggju.  Það vantaði gagnrýna hugsun og þor til að mæta erfiðleikum á réttan hátt.

 Mér finnst allaf leitt að Árni Sigfússon háttvirtur bæjarstjóri og bæjarfulltrúi,  vinnur ekki með okkur hinum í bæjarstjórn að því aðkoma málum íhöfn, hann er ekki trúr sínum eigin orðum um samvinnu og samstöðu heldur uppteknum hætti og ræður sínum ráðum sjálfur án samráðs og umræðu.

Mér hefur stundum fundist það samstarf sem bæjarstjóri  bíður uppá vera falið í orðum fyrrverandi borgarstjóra sem hún lét hafa eftir sér á síðasta kjörtímabili „samstarfið hefði gengið vel hefði hann samþykkt allt sem við vorum búin að ákveða“

Kaup Reykjanesbæjar  á hlut í Íslending ehf er getið í endurskoðunarskýrslu og einnig er þar tíundað að samþykki bæjarráðs eða bæjarstjórnar lá ekki fyrir þegar kaupin áttu sér stað. Þau kaup og sú stjórnsýsla hefur enn sem komið er ekki verið rædd hvorki í bæjarráði né bæjarstjórn.  Þetta eru kaup á órekstarhæfu fyrirtæki útí bæ sem bæjarsjóður hefur lánað rúmlega 100 milljónir, fjárfest í fyrirtæki sem skuldar 550 milljónir en á eignir uppá 440 milljónir, umræðulaust og án ákvarðanatöku í bæjarstjórn eða bæjarráði.

Annað mál sem mér finnst mun alvarlegra er stjórnsýsla bæjarstjóra eða vanvirðing við góða stjórnsýsluhætti.  Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaganna sendi bréf stílað á Bæjarstjórn Reykjanesbæjar. þrátt fyrir að sína bréfið frá nefndinni barst hafa  13 bæjarráðsfundir og 6 bæjarstjórnarfundir verið haldnir, hefur bæjarstjóri ekki séð tilefni til að kynna bæjarráði eða bæjarstjórn innhald þess eða svarinu sem dagsett er 4 apríl s.l.

Þetta þykir mér vítaverð stjórnsýsla og í því ljósi hef ég í dag Eftirlitsnefndina með fjármálum sveitarfélaga, ósk um að hér eftir verði allir bæjarfulltrúar í  bæjarstjórn Reykjanesbæjar, ég upplýstur um öll samskipti milli nefndarinnar og Reykjanesbæjar í hvaða formi sem þau kunna að verða.

Í framhaldi af þessu óska ég eftir að bóka eftirfarandi.

 

Kristinn Þór Jakobsson, leggur fram eftirfarandi bókun: 

 

Eftir að hafa lesið ársreikninga Reykjanesbæjar fyrir árið 2010 og meðfylgjandi endurskoðunarskýrslu, koma í ljós stórkostlegar brotalamir í stjórnsýslu Reykjanesbæjar sem eru ámælisverðar. Ljóst er að ráðist hefur verið  í framkvæmdir og kaup á hlutafélagi óskyldu rekstri bæjarfélagsins, án umræðu og afgreiðslu í bæjarráði eða bæjarstjórn. Um er að ræða  kaup á hlut í Íslendingi ehf. sem er fjárfesting án heimildar í órekstrarhæfu hlutafélagi. Hlutafélag  sem bærinn var áður  búinn að lána rúmar 100 milljónir  til rekstrar og framkvæmda og  sem að auki skuldar 110 milljónir umfram eignir. 

Öllu alvarlegra er sú leynd sem hvílir yfir samskiptum bæjarins og Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga.  Bæjarstjóri hefur haft  6 bæjarstjórnarfundi og 13 bæjarráðsfundi til að leggja fram aðvörunarbréf dagsett 9. febrúar sl., frá EFS  sem stílað er á Bæjarstjórn Reykjanesbæjar. Bæjarstjóri svaraði bréfi EFS þann 4. apríl. Slík samskipti eiga að vera uppi á borðum og aðgengileg bæði fyrir bæjarfulltrúa sem og íbúa bæjarins.  Í 74 gr. Sveitarstjórnarlaga er skýrt kveðið á um samskipti nefndarinnar við sveitarstjórnir. Bæjarstjóra ber að fara eftir þeim lögum. Annað er ámælisvert og brýtur í bága við góða og eðlilega stjórnsýsluhætti.

Íbúar í Reykjanesbæ eiga betra skilið.

 

Meira af þessum málefnum síðar. 


 

 


Samvinna = árangur

Eru sveitarstjórnarmenn á Reykjanesi í handbremsu hugarfarsins? Sjá þeir ekki framtíðina þrátt fyrir að hún sé beint fyrir framan þá. Framtíðarnefnd S.S.S. boðaði til opins málþings um framtíðarskipan Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum  mánudaginn 22. mars  sl. í Garði.  Þar flutti ráðgjafi nefndarinnar fróðlega samantekt lýsti kostum um framtíðarskipa í samstarfi sveitarfélaganna á Suðurnesjum:

1.       að sveitarfélögin sameinuðust.

2.       að starfsemi S.S.S. yrði breytt og rekstur stofnana og fyrirtækja  yrði færður út í sveitarfélöginn og S.S.S. yrðir einskonar pólitísk hagsmunasamtök svæðisins.

3.       að S.S.S. yrði eflt og tæki að sér fleiri og stærri mál er varað sveitarfélögin á Suðurnesjum.

Málþingið sóttu margir núverandi og tilvonandi sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum og töluðu um málefni sem brunnu á þeim. Að ekki væri nóg að hittast einn laugardag á ári á aðalafundi S.S.S. Það þyrfti að efla samstarfið og tryggja rétt minnihlutans. En eins og kunnugt hefur verið í fréttum á undanförnu kjörtímabili hefur samstarf innan S.S.S.undanfarin ár einkennst af togstreitu og vantrausti.

Umræðan á málþinginu var eingöngu um annan og þriðja kost ráðgjafans. Nánast enginn um fyrsta kostinn, sameiningu. Einn ræðumanna taldi að sveitarstjórnir hefðu ekki umboð til að ræða sameiningu þar sem síðustu sameiningartillögur hefðu verið kolfeldar í kosningum.

 

Við verðum að leita allra leiða til að hagræða, til að styrkja grundvöll búsetu hér á svæðin í ljósi atvinnuástands á Reykjanesi og „ekki“- aðgerða ríkisstjórnarinnar.

Því er erfitt að tryggja að minnihluti sveitarfélaga fái einhverju ráðið í krafti íbúa hlutfalls þar sem Reykjanesbær trjónir yfir og það  þótt öll hin sveitarfélögin sameinist um mál. Styrkur hina smáu felst í  samvinnu.

Sveitarstjónarmenn á Reykjanesi vita að skynsamlegast er að vinna saman að hagsmunamálum íbúa. Þeir vita það líka að sameining sveitarfélaga á Reykjanesi er yfirvofandi ef ekki með góðu þá með lagasetningu frá ríkisstjórn. Betra er að sameinast með samkomulagi en undir lagavaldi. Sameining sveitarfélaganna er óumflýjanleg. Því er augljóst að hefja verður samræðu um hvaða leið(ir) eigi að fara í sameiningu sveitarfélaga á Reykjanesi. Hagur íbúa svæðisins er best borgið með samvinnu. Þannig tryggjum árangur. 

 

Ein af þeim leiðum sem ráðgjafinn tiltók ef sveitarfélög tækju þá ákvörðun að sameinast var Bodö líkanið. Þar sem 5 sveitarfélög sameinuðust í eitt. Þar er fjöldi bæjarfulltrúar 39 og auk þess er kosið í 5 hverfaráð  eitt fyrir hvert sveitarfélags sem sameinaðist.  Þessi tillaga fékk enga umræðu á málþinginu .  Eru núverandi sveitarstjórnamenn á Reykjanesi algerlega sneiddir framsýni eða vilja þeir ekki horfast í augu við raunveruleikan sem blasir við þeim?  Ég skora á alla þá er sóttu málþingið og íbúa á öllu Reykjanesi að taka úr handbremsu hugarfarsins og skoða og ræða fyrsta kost Framtíðarnefndarinnar S.S.S.  sameiningu. Bodö líkanið er góð byrjun á þarfri umræðu.

viljir þú leggja orð í umræðuna þá gerðu það hér fyrir neðan í athugsemdir eða sendu mér tölvupóst kristinnjakobsson(hjá)gmail.com www.xbreykjanesbaer.is

 


Áskorun til ríkisstjórnar Íslands.


Við íbúar Reykjanessins eru orðnir langþreyttir á atvinnuleysinu -  þjóðarplágu sem allt og alla ætlar að drepa. Þeir vonarneistar, sem tekist hefur að kveikja í augum íbúanna, hafa fljótlega breyst í útkulnuð kol þegar ráðamenn þjóðarinnar tjá sig um atvinnuuppbyggingu á Reykjanesi.

Fyrirtækið ECA kom fyrst til Íslands  vorið 2009 til að kanna möguleika á staðsetja hér á landi verkefni sem þeir höfðu unnið að í fimm ár. Verkefnið er leigja út 18 vopnlausar  rússneskar þotur af gerðinni Sukhoi Su-35Mk (Flanker D).  Þessi þota er flaggskip rússneskra flugvélaiðnaðarins. Þetta er í fyrsta skipt sem Rússar selja slíkar flugvélar til þjóða innan NATO. Ætlunin er að starfrækja hér þjálfunar- og viðhaldsstöð fyrir þoturnar. Þjálfa þarf flugmenn og flugvirkja til að annast þessa þjónustu .

150-200 störf.

Áætlað er, ef og þegar starfsemin er komin í fullan rekstur, að þá starfi 150- 200 starfsmenn hjá fyrirtækinu búsettir á Íslandi og þá eru ótalin afleidd störf sem alltaf fylgja rekstri sem þessum. Þótt að vélar ECA hafi verið byggðar sem herþotur verða þær vopnlausar og flogið til annara landa til að þjálfa varnarviðbrögð vinveittra þjóða.

Fyrirtækið ECA  leigir út þyrlur og tæki til þjálfunar í friðsamlegum tilgangi. Það selur þjónustu sína eingöngu til ríkisstjórna. Það starfar og hefur starfað með ríkistjórnum  Bandaríkjanna, Hollands, Kanada, Belgíu og Síngapúr og Nato. ECA er undir ströngu eftirliti. Fyrirtækinu er aðeins leyft að starfa með ríkisstjórnum og starfsmönnum þeirra. Það forðast að starfa með löndum þar sem stjórnmálaumhverfið er óstöðugt eins og Ísrael, Tævan, Pakistan, Jemen, Lýbíu og Líbanon svo nokkur lönd séu nefnd.

Besta staðsetningin.

En hvers vegna Keflavíkurflugvöllur?  ECA leitað fyrst til kanadískra stjórnvalda en fengu synjun þar sem fyrir er í landinu samskonar fyrirtæki,  TOP ACES.  Keflavíkurflugvöllur er ákaflega vel í sveit settur vegna landfræðilegrar legu sinnar  mitt á milli tveggja heimsálfa. Aðstaðan er fyrir hendi í lítt  notuðum flugvelli og yfirgefinni herstöð með ónotað húsnæði og innviði sem gagnast starfsemi fyrirtækisins.  

Flugakademía Keilis að Ásbrú styrkist með komu fyrirtækisins.   Starfssemin fer vel saman við stefnumótun KADECO varaðandi umbreytingu Keflavíkurflugvallar.  Flugakademía Keilis gæti séð um menntun og þjálfun flugmanna og flugvirkja og með því rennt styrkari stoðum undir það frábæra starf sem þegar hefur verið unnið á þeirra vegum.

Verði  Landhelgisgæslan flutt í þá aðstöðu, sem henni stendur til boða á Keflavíkurflugvelli, þá verða ótvíræð samlegðaráhrif.  ECA á og leigir út þyrlur til flutninga í friðsamlegum tilgangi og verður væntanlega að staðsetja þyrlur hér á landi samfara þjálfun flugmanna sinna. Að mínu mati  gæti þetta  styrkt öryggis- og björgunarhlutverk Landhelgisgæslunnar til framtíðar.  Aukin flugumferð gæti einnig haft jákvæða áhrif á rekstur Keflavíkurflugvallar

Við íbúar Reykjanesbæjar, eldri en fjögurra vetra,  ólumst  upp við gný  og hávaða frá þotum varnarliðsins þegar það var hér.   Hávaðinn í herþotunum hér á árunum áður var aðallega er vélarnar voru að taka á loft, með allt á útopnuðu, í veg fyrir rússneskar sprengjuflugvélar sem flugu inn í íslenska lofthelgi. Oft heyrðist ekki mannamál í nokkrar mínútur á meðan 4-6 þotur tóku á loft. En EAC er allt annars eðlis. ECA er ekki her eða varnaraðili. Vélarnar taka ekki á loft í neinum flýti.  Þess vegna þarf ekki að heyrst meira í þeim en venjulegum farþegaþotum sem fara í loftið oft á dag án þess að við tökum eftir því.

Ég skora á ríkisstjórn Íslands að  í stað þess að standa í vegi fyrir atvinnuuppbyggingu á Reykjanesi greiða hún götu þessa verkefnis. Ríkisstjórnin þarf þess, íbúar á Reykjanesi þurfa þess Ísland þarfnast þess.

Kristinn Þór Jakobsson. Höfundur er viðskiptafræðingur og íbúi í Reykjanesbæ.


Þær systur úr hagfræðinni Neysla og Framleiðsla

Sem manneskjur lifum við ekki án vonar. Þegar okkur skortir ástæðu til að lifa, burt séð frá þeim hvötum sem líffræðin hefur þróað með okkur í árþúsundir, fer mannskepnan niður á það stig tilverunnar sem dýr lifa, þar sem matur, þægindi og mökun er eina sem máli skiptir.  Andstæðan við þetta er hin ótrúlegu menningar samfélög sem upp hafa risið í mannkynssögunni sem hafa orðið til vegna tveggja aðgreindar forsendna, einhverra auðlinda og tækni til að nýta þær. Útkoman var og er efnisleg velmegun. Sem aftur varð til þess að markmið voru sett til bæta og létta líf þegnana til að vinna á óumflýjanlegum erfiðleikum og hindrunum sem lífsbarátta þeirra snerist um. Ef annað hvort þessara skilyrða skortir snýst lífið um eigingjarna baráttu, ef bæði skilyrðin skortir er lífsbaráttan vonlaus.

Umbætur í sögulegu ljósi. Það ræðst af  félagslegri þróun, að sérstakur hópur einstaklinga stígur fram með loforð um umbætur efnislegra skilyrða og setur fram markmið hvernig veita á lífsorkunni útrás. Ef þessir einstaklingar geta sett fram trúverðuga stefnu, eru þeir líklegir að rísa upp sem leiðtogar samfélagsins vegna þess að hópurinn er samþykkur að fylgja einstaklingnum. Í mörg þúsund ár voru þessir einstaklingar bestu veiðimenn ættbálksins sem deildu út bestu bitum bráðarinnar og sögðu bestu sögurnar af aflabrögðum og veiðilendum. Eftir því sem tækni við fæðuöflun,  framleiðslu og stríðsrekstur þróaðist, tóku kóngar umkringdir hirð, stríðsherrar og prestar sér yfirvald. Trúarleiðtogar, og höfðingjar, venjulega eigendur stórjarða, skiptu með sér valdi. Á síðastliðnum tveimur öldum eða svo hafa hinsvegar kaupmenn og framleiðendur risið upp á topp félagslega píramídans.  Það eru tveir hópar einstaklinga sem í dag krýnast þessum leiðtogatitlum einskonar framfærendur eða útdeilendur efnislegra og andlegar gæða. Fyrst má telja vísindamenn, sem gefa von um lengra og heilsusamlegra líf, útþenslu út fyrir sólkerfi okkar, og endanlega stjórn yfir dauðlegum og ódauðlegum efnum. Í seinni og stærri hópunum eru menn og konur í viðskiptum, úrval af fólki með þekkingu sem haslað hefur sér völl,  sem áður var varinn af ættgöfgi og klerkastétt. Þeir sem ekki eru innan raða seinni hópsins eru engu að síður tilbúinn að gefa einstaklingum innan hópsins vald og auð. Vegna þess þau trúa því að samfélagið sem heild hafi hag af viðleitni þeirra.

 Viðmið velmegunar. Á síðastliðinni öld hafa viðskiptajöfrar staðhæft, og haft nokkuð til síns máls, að með því að leyfa markaðsfrelsi laust við félagsleg og pólitísk höft, myndu lífsgæði allra batna. Sagan hefur sumstaðar sýnt að lífsgæði hafa batnað,  en ekki allstaðar. Við  lýtum á þær tvíburasystur úr hagfræðinni, framleiðslu og neyslu, sem viðmið velmegunar.  Ef neysla eða framleiðsla dregst saman þó ekki nema um brot úr prósentu er flaggað á mörkuðum og fjárfestar reyna að verja sig og leita skjóls. Í dag skiptir ekki máli hvort stofnanir opinberar sem hálfopinberar skili góðri þjónustu, heldur verður arðsemi að mæta væntingum fjárfesta og eigenda.  Hagnaðarhlutfall sem áður var ein stafa tala verður nú að vera nær tuttugu en tíu prósentum af eigin fé. Auðvitað er þetta ekki viðskiptalífinu einu að kenna. Samfélagið allt hefur þróað með sér græðgi, bragð af hæstu mögulegu ávöxtun, á sem skemmstum tíma.

 Hamingjan og valið Áður fyrr, vænti fólk ekki hamingjunnar á fjármálamörkuðum. Forfeður okkar lögðu metnað sinn í vinnu sína, fundu öryggi í landi sínu, búsmala og aflafeng,  eygðu von í trú sinni, og sóttu huggun hjá fjölskyldu og samfélaginu sem þeir lifðu í. Sá ágóði sem fékkst með skynsamlegri fjárfestingu var aðeins ánægjuleg blessun. En í dag er það álitið alltof mikil áreynsla að leggja rækt við vinnuna, fjölskylduna og samfélagið, það er miklu auðveldara að sjá hlutabréfin margfaldast. Þá er aðeins eftir að spyrja hvaða einstaklingar það eru sem almenningur treystir til að skipta kökunni í framtíðinni? Verða það stjórnmálamenn, kaupsýslumenn eða vísindamenn?  Er valið okkar?

   

 


Ísland fyrir Íslendinga?

ÁGÆTI ný- Íslendingur, ég vil bjóða þig velkominn heim og vona svo sannarlega að þú þurfir ekki að líða fyrir skoðanir fárra misviturra stjórnmálamanna. Því mig langar til að þér líði betur hér á landi en þér leið í því landi sem þú kallar föðurland þitt. Þegar þú lítur yfir Þingvelli eða skoðar Lista- eða Þjóðminjasafn Íslands eða horfir á íslenska hönnun, óska ég þess helst að þú finnir fyrir stolti – vegna þess að allt þetta er þitt.

Þú færð með tímanum kosningarétt, rétt til að velja og hafna með lýðræðislegum hætti því fólki sem þú treystir til að stjórna landinu, bæjarfélaginu, eða verkalýðsfélagi sem þú kýst að ganga í.

Kosningar eru sú athöfn sem skýrir og styrkir lýðræðið hvað mest, það er skylda okkar allra að nýta kosningarétt okkar, hann er mikilvægasta tæki okkar til að hafa áhrif.

Ég vona að sem nýr Íslendingur, muntu lesa Heimskringlu, Laxness og Þórberg, að þú úðir í þig lambakjöti, hákarli og hamsatólg, farir í sundlaugar, á skíði og skauta, að þú farir á söguslóðir Íslendingasagna. Einnig óska ég þess að þú verðir hæversk(ur), þolinmóð(ur) og vingjarnleg(ur) við annað fólk og nýtir þér tækifærin sem samfélag okkar og landið bjóða þér til að þroskast sem íslenskur einstaklingur. Þú tókst ákvörðun um að verða hluti lands og þjóðar sem er dáð og öfundað um heim allan fyrir að vera efnuð, friðsamleg, umburðarlynd og tekin alvarlega og á okkur er hlustað þó rödd okkar sé lág.

Öll saga Íslands er þín allt frá Landnámi til dagsins í dag. Þú verður að taka við sigrum þess líkt og sorgum. Þú kemur kannski frá landi sem gengur í gegnum hörmulega tíma. Kannski hefur þú misst föðurland þitt og sérð Ísland sem einskonar frelsun. En það er langt í land að við séum fullkomin. Land og þjóð eru enn að þroskast. Lýðræði okkar þarf stöðuga aðgæslu og ábyrgð.

Ég er stoltur að Ísland bjóði velkomið flóttafólk, fólk í leit að atvinnu vegna ástandsins heima fyrir og ég finn fyrir djúpri andúð á umræðu sem þeirri sem nýverið hefur sprottið upp og tröllríður fjölmiðlum og umræðu þessa lands sprottið af lýðskrumi eins manns í baráttu fyrir pólitískri framtíð sinni. Ekkert land er án vandkvæða. Íslenskur ríkisborgararéttur er ekki hlaðborð, þar sem þú getur valið það sem þér líkar og skilið eftir það sem þér líkar ekki. Íslenskur ríkisborgararéttur er allur pakkinn.

Þér á eftir að vegna vel, færð tækifæri sem þú verður að nýta þér. Ísland hefur einstakt menntakerfi. Börn þín geta sótt skóla með öðrum börnum og lært hvernig og hvað það er að vera Íslendingur. Skólakerfi okkar er ókeypis og Ísland vill að þú hagnist með þátttöku í því. Ef þú ert foreldri vona ég að þú hittir kennarana og takir þátt í skólastarfi. Ef þú ert barn, vona ég sannarlega að þér takist að kynnast og blandast allskonar fólki og þú lærir um líf þess, baráttu og sigra.

Þú getur tekið með þér allskyns hefðir þaðan sem þú kemur og mátt halda í eins margar hefðir og þú kýst eða segja skilið við þær. Enginn neyðir þig til neins – þetta er það sem þú valdir – val einstaklings innan samhengis og ramma Íslensks veruleika.

Þú ert frjáls að lifa drauma þína eða og barna þinna. Ég vona að þú verðir ekki aðeins löghlýðinn, góður borgari, heldur að úr þér verði mikill og athyglisverður einstaklingur

Draumar rætast ef unnið er að þeim. Með lífi þínu og barna þinna getum við haldið áfram að gera Ísland að einstöku landi, saman. Þar sem þú ert ein(n) af okkur.

Höfundur er viðskiptafræðingur.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband