SAMVINNA = ÁRANGUR


Að líta yfir farinn veg er gamall og góður siður um áramót og einnig til framtíðar. Árið 2012, sem nú er að líða, hefur borðið í skauti sér ýmislegt sem bæði er gott og vont, eins og öll ár gera. Mörg höfum við séð á bak nánum ættingjum eða vinum, skörðin eru mörg og vandfyllt. Þeim, sem um sárt eiga að binda, sendi ég mínar samúðarkveðjur.
Flest höfum við líka eignast nýja vini, börn hafa fæðst í þennan heim, öll eru þau velkomin og ég óska þeim árs og friðar á þessum tímamótum.
Þegar við stöndum á tímamótum í lífi okkar, sem geta hvort heldur sem er verið lituð af gleði eða sorg, þá er okkur nauðsynlegt að staldra við, horfa til baka, líta yfir farinn veg, draga af honum lærdóm, nýta hann til að búa okkur undir framtíðina.
Oft er sagt að orð eru til alls fyrst. Þegar góðum árangri er náð í samfélagsverkefnum er það alltaf í kjölfar góðar samvinnu og samtals. Hinar hefðbundnu tegundir samtals eru eftirfarandi: Eintal þar sem ræðan er frá einum og ekki skipst á skoðunum. Samtal þar sem rætt er um málin og þau krufin til mergjar af tveimur aðilum. Umræður þar sem skipst er á skoðunum í hóp og sameiginleg lausn fundin. Rökræður þar sem kappkostað er að haga máli sínu þannig að hver og einn færir rök fyrir sínu máli sem geta kollvarpað málstað andstæðinga.
En okkar sér íslenska rökræðuhefð er síðan fimmta tegundin en þá er ekki deilt með rökum heldur hjólað beint í manninn og hann sem einstaklingur rifinn niður með alskyns óhróðri. Þessari umræðuhefð okkar verður að breyta því hún skilar okkur ekki fram á veginn.
Nýverið varð ég þeirrar ánægju aðnjótandi að starfa í öflugum hópi sem skipulagði fund með starfsmönnum stofnanna tengdum félags og velferðarmálum á Suðurnesjum. Fundurinn var haldinn í Fjölbrautarskólanum og skipulagður með svokölluð Heimskaffi eða Worldcafé sniði . Þar komu fram margar og fjölbreyttar skoðanir á eflingu og þróun velferðar á Suðurnesjum. Margar mjög athyglisverðar hugmyndir kviknuðu á fundinum. Hér nefni ég aðeins þrjár af mörgum.
• Við verðum að sá jákvæðni og stunda uppbyggilega umræðu um heimahagana og hampa því góða og bæta úr því sem miður er.
• Auka menntunarúrræði sem mæta atvinnutækifærum framtíðarinnar á Reykjanesi.
• Skapa meiri samstöðu meðal íbúa og efla samstarf sveitarfélaganna allra.
Margar fleiri frábærar hugmyndir kviknuðu sem hefur verið gert grein fyrir og verður unnið að í nálægri framtíð. Við getum öll staðið saman um að fjölga störfum sem skapa atvinnu sem verður grunnur að vexti sem svo tryggir velferð fyrir okkur öll.
Það er áskorun til okkar allra að taka virkan þátt í samfélaginu, því bið ég þig lesandi góður að skoða hug þinn og spyrja þig hvað þú getur gert til að samfélagið okkar verði betra, það er allt sem þarf. Ræddu málin og taktu þátt, vettvangur í flokkstarfi Framsóknarflokksins er kjörinn til þess.
Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári með þökk fyrir góða samvinnu á undanförnum árum.
Kristinn Þór Jakobsson bæjarfulltrúi Reykjanesbæ.
Greinin birtist í Suðurnes jólablaði Framsóknarmanna á Suðurnesjum 2012

« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband