Þú færð með tímanum kosningarétt, rétt til að velja og hafna með lýðræðislegum hætti því fólki sem þú treystir til að stjórna landinu, bæjarfélaginu, eða verkalýðsfélagi sem þú kýst að ganga í.
Kosningar eru sú athöfn sem skýrir og styrkir lýðræðið hvað mest, það er skylda okkar allra að nýta kosningarétt okkar, hann er mikilvægasta tæki okkar til að hafa áhrif.
Ég vona að sem nýr Íslendingur, muntu lesa Heimskringlu, Laxness og Þórberg, að þú úðir í þig lambakjöti, hákarli og hamsatólg, farir í sundlaugar, á skíði og skauta, að þú farir á söguslóðir Íslendingasagna. Einnig óska ég þess að þú verðir hæversk(ur), þolinmóð(ur) og vingjarnleg(ur) við annað fólk og nýtir þér tækifærin sem samfélag okkar og landið bjóða þér til að þroskast sem íslenskur einstaklingur. Þú tókst ákvörðun um að verða hluti lands og þjóðar sem er dáð og öfundað um heim allan fyrir að vera efnuð, friðsamleg, umburðarlynd og tekin alvarlega og á okkur er hlustað þó rödd okkar sé lág.
Öll saga Íslands er þín allt frá Landnámi til dagsins í dag. Þú verður að taka við sigrum þess líkt og sorgum. Þú kemur kannski frá landi sem gengur í gegnum hörmulega tíma. Kannski hefur þú misst föðurland þitt og sérð Ísland sem einskonar frelsun. En það er langt í land að við séum fullkomin. Land og þjóð eru enn að þroskast. Lýðræði okkar þarf stöðuga aðgæslu og ábyrgð.
Ég er stoltur að Ísland bjóði velkomið flóttafólk, fólk í leit að atvinnu vegna ástandsins heima fyrir og ég finn fyrir djúpri andúð á umræðu sem þeirri sem nýverið hefur sprottið upp og tröllríður fjölmiðlum og umræðu þessa lands sprottið af lýðskrumi eins manns í baráttu fyrir pólitískri framtíð sinni. Ekkert land er án vandkvæða. Íslenskur ríkisborgararéttur er ekki hlaðborð, þar sem þú getur valið það sem þér líkar og skilið eftir það sem þér líkar ekki. Íslenskur ríkisborgararéttur er allur pakkinn.
Þér á eftir að vegna vel, færð tækifæri sem þú verður að nýta þér. Ísland hefur einstakt menntakerfi. Börn þín geta sótt skóla með öðrum börnum og lært hvernig og hvað það er að vera Íslendingur. Skólakerfi okkar er ókeypis og Ísland vill að þú hagnist með þátttöku í því. Ef þú ert foreldri vona ég að þú hittir kennarana og takir þátt í skólastarfi. Ef þú ert barn, vona ég sannarlega að þér takist að kynnast og blandast allskonar fólki og þú lærir um líf þess, baráttu og sigra.
Þú getur tekið með þér allskyns hefðir þaðan sem þú kemur og mátt halda í eins margar hefðir og þú kýst eða segja skilið við þær. Enginn neyðir þig til neins – þetta er það sem þú valdir – val einstaklings innan samhengis og ramma Íslensks veruleika.
Þú ert frjáls að lifa drauma þína eða og barna þinna. Ég vona að þú verðir ekki aðeins löghlýðinn, góður borgari, heldur að úr þér verði mikill og athyglisverður einstaklingur
Draumar rætast ef unnið er að þeim. Með lífi þínu og barna þinna getum við haldið áfram að gera Ísland að einstöku landi, saman. Þar sem þú ert ein(n) af okkur.
Höfundur er viðskiptafræðingur.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning